Zacharias Topelius
Zacharias Topelius var finnskur rithöfundur, blaðamaður, og háskólakennari sem átti stóran þátt í að koma finnskum bókmenntum til aukins þroska á nítjándu öld. Eins og H. C. Andersen í Danmörku skrifaði hann mikið af barnasögum og þá var hann fyrsti finnski rithöfundurinn til að skrifa sögulegar skáldsögur.
Topelius fæddist 14. janúar árið 1818 nærri bænum Nikarleby í Finnlandi. Faðir hans og nafni var læknir og gat sér orð fyrir að vera fyrstur manna til að safna saman finnskum þjóðlögum. Móðir hans Katarina Sofia Calamnius var einnig af menntafólki komin.
Topelius var snemma bókhneigður og las flest sem hann kom höndum yfir. Voru skáldin Frans Michael Franzén og Johan Ludvig Runeberg í sérstöku uppáhaldi hjá honum og síðar Victor Hugo. Urðu þeir Runeberg seinna miklir vinir.
Topeliusi gekk vel í skóla og lauk háskólanámi í heimspeki. Síðar hlaut hann doktorsnafnbót í þeirri grein. Saga Finna varð honum mjög hugleikin og kenndi hann hana við háskólann í Helsinki og varð síðar rektor við þann skóla. Strax samfara háskólanámi hóf Topelius að skrifa skáldverk og hélt hann því út æfina, en einkum fékkst hann við sögulegar skáldsögur og þá eru sögur hans fyrir börn mjög kunnar. Vinsælastar urðu þó sögur hans af herlækninum góða en sá sagnabálkur kom út á árunum 1853-1867. Hafa margir viljað meina að með sögulegum skáldsögum sínum hafi Topelius vakið upp frelsisþrá meðal Finna sem lutu stjórn Rússa. Ekki virtist Topelius sjálfur vera meðvitaður um þau áhrif skrifa sinna og í byltingunni árið 1848 tók hann aldrei beina afstöðu, hvorki með byltingarsinnum eða Rússum.
Topelius lét einnig mikið að sér kveða í blaðamennsku og greinar hans fjölluðu gjarnan um félagslegt réttlæti. Hann barðist m.a. fyrir kjörum þeirra verst settu.
Topelius lést árið 1898.